Færsluflokkur: Bloggar

Skíðaganga er hreyfing fyrir alla

HREYFING fyrir alla er verkefni sem nýlega var hleypt af stokkunum en um er að ræða samstarfsverkefni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands sem fara mun fram í nokkrum sveitarfélögum í landinu með það að markmiði að fá fleiri til að hreyfa sig reglulega. Ætlunin er að skipulögð hreyfing standi til boða fólki sem til þessa hefur ekki stundað reglulega hreyfingu og skortir jafnvel hvatningu og stuðning til þess.

Í þessu sambandi er rétt að benda á þá möguleika sem skíðaganga býður upp á sem almenningsíþrótt. Þetta er holl og góð hreyfing utandyra sem hver og einn getur stundað á eigin forsendum. Hún getur verið létt og þægileg hreyfing fyrir þá sem eru að byrja að hreyfa sig reglulega en með aukinni þjálfun verður hún erfiðari. Þá er hraðinn aukinn, erfiðari leiðir valdar og meira tekið á. Í kjölfarið eykst þol og styrkur ásamt mikilli brennslu þannig að skíðaganga hentar mjög vel þeim sem vilja komast í gott form. Hún er líka tilvalin fyrir áhugafólk um útivist því oft er auðveldara og skemmtilegra að ganga um óbyggðir á gönguskíðum.

Skíðaganga hefur ekki átt þeim vinsældum að fagna á Íslandi sem hún á erlendis, einkum á Norðurlöndum og í norðanverðri Evrópu. Má þar helst um kenna rysjóttu veðurfari sem veldur því að aðstæður fyrir skíðagöngu geta verið mjög erfiðar. Það er helst á Norðurlandi og Vestfjörðum sem skíðaganga er stunduð reglulega yfir veturinn á skipulögðum göngusvæðum. En þrátt fyrir að íslensk veðrátta reynist skíðagöngufólki erfið, þá á fjöldi fólks gönguskíði sem gjarnan safna ryki í geymslum og eru í mesta lagi dregin fram einu sinni eða tvisvar yfir veturinn. Það er hins vegar um að gera að nota þau þegar aðstæður leyfa, sem er oftar en margur heldur. Gangið eitthvað út í náttúruna eða kynnið ykkur gönguaðstöðu skíðasvæðanna þar sem lagðar eru brautir fyrir byrjendur jafnt sem keppnisfólk. Sums staðar er boðið upp á námskeið en með réttri tækni fæst meira út úr hreyfingunni og betri árangur. Svo er um að gera að kynna sér þær skemmtilegu göngur sem boðið er upp á í Íslandsgöngunni en það eru almenningsgöngur sem fara fram víðs vegar um landið undir umsjón trimmnefndar Skíðasambands Íslands. Ávallt er boðið upp á nokkrar vegalengdir þannig að allir eiga að geta fundið brautir við sitt hæfi enda markmiðið með göngunum að ná til breiðs og fjölbreytts hóps iðkenda.

Að ganga á skíðum í íslenskri náttúru þar sem vetur konungur ræður ríkjum er engu líkt og ekki spillir að vita að hvert skref styrkir líkamann og bætir heilsuna. Það er góð hvatning til að hreyfa sig reglulega.

GUÐFINNA M. HREIÐARSDÓTTIR,

áhugamanneskja um eflingu skíðagöngu á Íslandi.

Frá Guðfinnu M. Hreiðarsdóttur:


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband